Viku fyrir brottför

 


Ég er byrjuð að pakka og flýg eftir nokkra tíma. Ég er mjög spennt og hlakka til ferðarinnar. Þetta verður allt annars konar frí en þau sem ég er vön að fara í. Það endurspeglast í því hvernig ég pakka niður. Engin snyrtibudda er meðferðis, né heldur sléttujárn, háir hælar eða spariföt. Þess í stað eru jógaföt, bómullarkjólar, joggingbuxur og sandalar. Fullt af góðum bókum - That’s it! Hollusta og afslöppun á hæsta plani.

Fyrir viku fékk ég tölvupóst frá Kropsinstituttet. “Nú er vika í brottför - og þá þarf að byrja að huga að mataræðinu.” Ég hef verið beðin um að sniðganga áfengi, kaffi, mjólkurvörur, sykur og allt sem er hvítt – hvítt hveiti, hvítt brauð, hvít hrísgrjón og allar tegundir af kjöti en ekki fisk. Vikan mín hefur þess vegna samanstaðið af vatni, jurtatei með smá hunangi, fullt af ávöxtum og grænmeti og smá fiski. Það hefur haft í för með sér svakalegan höfuðverk en á móti hef ég lést um eitt kíló.

Nú fyrir brottför sit ég og velti fyrir mér hvernig heilsu minni er háttað. Mér líður í raun eins og ég sé heilbrigð og frísk og hef eiginlega litið á litlu kvillana mína sem venjulegt ástand sem ég verð bara að læra að lifa með. En ég veit í raun vel að líkami minn ætti að vera í betra ástandi. Ég hef bara orðið ónæm vegna streitunnar sem er samfara hversdeginum og litið á einkennin sem eðlileg. Því er ég hætt núna. Nú vil ég fara til Sri Lanka í þeirri von að ástand mitt batni, streitan minnki, missi nokkur kíló og fái meiri orku.

 


OG HVERNIG HEF ÉG ÞAÐ AKKÚRAT NÚNA: EINKENNI MÍN ERU EFTIRFARANDI:

 • Ég er með stöðugan höfuðverk

 • Ég er stíf í baki og ökklum

 • Ég er með þurra húð

 • Ég finn mikið til í aumum liðum

 • Ég er með hnakkaspennu

 • Ég á mjög erfitt með að léttast

 • Minnkandi áhugi á kynlífi

 • Barnleysi

 • Smá gyllinæð

 • Ég finn líka að ég er pirruð, með stuttan þráð og hef minni aukaorku og þolinmæði en ég vildi.


 

Nú loka ég tölvunni - hún fer nefnilega ekki með. Ég hef verið beðin um að skilja símann og tölvuna eftir heima. Það hefur komið í ljós að það er meira krefjandi fyrir mig en að sniðganga sykurinn og hvíta brauðið. Nú missi ég fullkomlega stjórn á umhverfi mínu - það hræðir mig.

Ég held því áfram með dagbókina með hjálp gamaldags skrifblokkar og blýants!

 

Dagur 1


LÆKNISHEIMSÓKN KLUKKUTÍMA EFTIR KOMU

Nú er ég komin til Sri Lanka. Velkomin í hitann. Hér er mikill raki og dásamlegur hiti hefur tekið á móti mér. Það er aðeins korterskeyrsla frá flugvellinum að hótelinu þar sem ég mun dvelja næstu 8 daga.

Ég fékk hlýjar og hjartanlegar móttökur á hótelinu með fallegum litlum blómvendi og glasi af nýpressuðum ávaxtasafa. Mér var sýnt aðeins um svæðið og hef nú fengið mitt eigið hús þar sem ég mun búa. Það er bókað að hér verða rólegheit, kyrrð og úthreinsun!

Húsið mitt er með mínu eigin meðferðarherbergi, fallegum grænum garði með legubekk og borði til að borða við. Þegar ég geng í gegnum garðinn kem ég inn í herbergið mitt. Stórt og fallegt herbergi með flottum og einföldum tekkhúsgögnum, stóru rúmi og litlu herbergi með fataskáp, öryggisskáp og ísskáp. Baðherbergið er bæði innandyra og utandyra.

Það er ekkert áfengi í míníbarnum - bara vatn! Og hljómflutningstækin eru full af slökunartónlist og hugleiðslutónlist. Nú er alvaran byrjuð finn ég! Ekkert sjónvarp, enginn sími, engin tölva, enginn iPod með tónlist - ég skildi allt eftir heima. Bíddu nú við - ég finn óróleikann læðast að mér, og finnst þetta allt heldur yfirþyrmandi í augnablikinu. Kannski er ég bara hrædd við þessa streitu, sem ég veit að ég er að fara að byrja að sleppa tökunum á?

Það hjálpar mér aðeins að allir eru brosandi og taka vel á móti mér með ótrúlegri ró og yfirvegun.

Ég er nýbúin að taka upp úr töskunum, búin að finna til sólhattinn og sólgleraugun og er lögst í sólbeddann í litla garðinum mínum þegar dyrabjöllunni er hringt. Það er ayurvedíski læknirinn minn - Nani, sem er mætt. Hún er ung og ótrúlega vinaleg kona í hvítum sloppi með gamaldags blóðrýstingsmæli undir hendinni. “Má ég koma inn?” spyr hún varlega. Læknisvitjun fer alltaf fram í manns eigin húsi.

Við setjumst niður og Nani segir mér fyrst smá um Ayurveda og hvaða meðferðir eru í boði hér. Nani spyr mig fjölda spurninga um heilsu mína og andlega líðan. Hvernig er meltingin, hverjar eru matarvenjur mínar, finn ég fyrir streitu, er spenna í líkamanum, hvort er ég meira fyrir salt, súrt, sætt eða biturt? Hvernig er kynlífsþörfin og hvaða vandamálum finn ég fyrir. Og þá legg ég einmitt listann minn á borðið!

Ég tók listann með svo ég væri örugg um að muna eftir öllu. Ég veit líka að ég gleymi fljótt hvernig mér hefur liðið ef ég hef ekki skrifað það niður. Við Nani eigum langt spjall í um hálftíma. Ég treysti konunni undir eins og hlakka í raun bara til að byrja á hinum ýmsu meðferðum.

Nani mælir blóðþrýstinginn hjá mér, sem var 110/70 og púlsinn er 68 slög á mínútu. Eftir því sem Ayurveda fræðin segja á hvíldarpúlsinn minn að vera 72 slög á mínútu.

Það kemur í ljós að líkaminn er í fullkomnu jafnvægi. Þannig að ef smá ójafnvægi  er í líkamanum verður unnið með það á næstu 8 dögum.

Ég segi lækninum að ég myndi gjarnan vilja missa um 6 kíló og útskýri fyrir henni að það hafi áður verið kjörþyngdin mín. Eftir að ég hætti að reykja fyrir 4 árum hef ég átt erfitt með að missa þessi síðustu kíló. Ég skynja samt fljótt að Nani finnst önnur atriði á listanum mikilvægari akkúrat núna.

Þetta gengur þannig fyrir sig að á meðan ég er hér á Sri Lanka fæ ég daglega heimsókn frá lækninum og út frá mælingum og viðtali veður gert meðferðarplan fyrir daginn.

Í dag byrjum við rólega á klukkutíma olíunuddi fyrir allan líkamann, höfuðnuddi og andlitsnuddi. Allt í allt er þetta tveggja og hálfs klukkutíma meðferð. Ég ræð vel við það. Líkamsnuddi lýkur alltaf með heitu jurtasmyrsli sem borið er á allan líkamann. Það er eins og að vera í himnaríki.

Nani telur að líkami minn eigi ekki að ganga í gegnum meira í dag eftir þetta langa ferðalag. Ég kinka bara kolli játandi, því hvað veit ég?

Ég hef fengið baðslopp og nokkrar einnota nærbuxur. Á meðan ég skipti um föt undirbýr meðferðaraðili minn sig í hinum hluta garðsins míns. Það er mjög gott prinsipp að allar læknisheimsóknir og meðferðir fari fram í einrúmi hjá mér. Ég þarf yfir höfuð ekkert að fara út fyrir húsið mitt. Það er fyrsta flokks lúxus!

Meðferðaraðili minn er lítil, vinaleg og brosmild kona. Allar konur fá meðferðir hjá öðrum konum og karlar hjá körlum.

Hún byrjar á að gefa mér enn einn blómvönd og byrjar á að þvo fætur mína. Fótabaðið er fyllt með fallegum blómknúppum og allt er passlegt og í fullkomnu harmónísku jafnvægi við náttúruna. Ég legg á bekkinn og næstu tveir tímar eru eins og heimsókn í Paradís. Það er ekkert minna en stórkostlegt. Ég get strax fundið að ég byrja að róast, slaka á og sleppa tökunum. Eftir nuddið er mikilvægt að ég láti ekki sól skína á húðina svo ég hvíli mig í herberginu mínu í 45 mínútur áður en ég get farið í langt, heitt bað og náð olíunni úr hárinu.

Mér er boðið upp á dásamlega bragðgott og heitt Nemullia jurtate. Lítill miði fylgir hverri sendingu svo ég geti vel fylgst með því sem ég er að drekka og hvernig það eigi að gagnast mér. Ég finn nú þegar fyrir öllum líkamanum og andlega er ég komin í 100% sjálfsdekursferð. Þetta ætti að vera réttur allra!

Það er kominn tími á jóga! Innifalið í ferðinni er daglegur jógatími og hugleiðsla. Klukkan er 17 og ég heilsa upp á jógagúrúinn minn sem er einmitt nýmættur. Næstu daga munum við stunda jóga að kvöldi til við sólsetur því liðleiki er ögn meiri að kvöldi til en snemma morguns. Enn og aftur fer allt fram utandyra. Nýi jógagúrúinn minn er hárvaxinn, grannur og ungur. Hann segir okkur aðeins frá jóga og segir að við komum til með að stunda sambland af Hatha og Kundalini jóga. Hann segir að við getum öll fullkomlega stöðvað öldrunarferli okkar með jóga. Nú sperri ég eyrun!

Hann segir mér að hann sé 53 ára og það er næg sönnun fyrir mig. Hann er með færri hrukkur í andlitinu en ég þegar ég var tvítug. Ég verð algjörlega orðlaus og uppnumin og langar að byrja strax. Í ljós kemur að þetta var gott spark í rassinn fyrir mig. Ég er algjörlega stíf í öllum liðum og öll hryggsúlan stíf sem bretti. Sama hvaða jógastellingu ég fer í og úr, ég verð eldrauð í framan og svitna og anda ótt og títt. Slaka, slaka, slaka… heyri ég stöðugt frá gúrúinum mínum.

Ég finn strax hvað ég hef gott af þessu og langar strax að skrá mig í jóga þegar ég kem heim. Jógatímanum líkur með stýrðri hugleiðslu og slökun. Jógagúrúinn minn segir okkur hvers vegna hugleiðsla er virkilega mikilvægur hluti af hversdeginu og lofar okkur því að við munum læra að íhuga áður en við förum heim aftur.

Kvöldmaturinn er borinn fram þegar ég vil. Allt snýst um að taka eftir. Ég get sjálf valið hvort ég vil fá kvöldmatinn sendan til mín í húsið mitt eða hvort ég vil borða á veitingastaðnum. Í kvöld vel ég að fá hann sendan til mín þar sem ég get setið í náttfötunum og slappað af.

Máltíðin samanstendur af þremur réttum. Forrétturinn er grænt salat og heit grænmetissúpa. Aðalrétturinn er brún hrísgrjón með tveimur grænmetiskarríréttum - annar er gulur og hinn brúnn. Maturinn er himneskur og fullur af alls konar bragðtegundum. Ég fæ strax löngun til að læra að matbúa á þennan hátt. Eftirrétturinn er skál með alls kyns útskornum, ferskum ávöxtum.

Ef þetta er megrun, þá er ég bara farin að hlakka til!

Það er orðið dimmt og ég er að verða þreytt. Ég kveiki á slökunartónlist og stefni á rúmið. Ég finn að þetta langa ferðalag er farið að taka toll og smá flugþreyta er farin að gera vart við sig. Allra fyrsti dagurinn minn í Ayurvedísku dvölinni minni á Sri Lanka hefur verið upplifun. Ég er enn spennt, eftirvæntingarfull og líka smá vör um mig. Ég finn að það getur valdið mér kvíða að þurfa að sleppa tökunum á öllum litlu kvillunum mínum. Annars vegar vil ég gjarnan losna við þá alla en ég er hins vegar að uppgötva núna að þeir veita mér ákveðið öryggi! Já, það hljómar fáránlega, en við notum jú öll okkar gen í eitt eða annað? Ég hef því ákveðið að fara út fyrir þægindarammann minn og stefna að góðri heilsu og mikilli orku.

 

GÓÐA NÓTT HÉÐAN!

 

Dagur 2

 

GÓÐAN DAGINN MEÐ SOÐNU VATNI OG HUNANGI

Dyrabjallan hringir og klukkan er 7.30. Brosmildur þjónn með stórt glas með hunangi og límónu stendur við dyrnar. Það á víst að vera besta leiðin til að léttast. Jibbí. Þetta er hér með byrjað! Ég drekk drykkinn með mikilli ánægju í rúminu og vakna rólega og framundan er nýr dagur í “heilsulandi”.

Dagurinn byrjar með að gera Tíbetana fimm og svo er ég komin í gang. Það nær púlsinum upp og ég finn að ég er ekki í neinu einasta formi. En Martin er góður kennari og hvetur mig til þess að halda áfram.

Ég vel að borða morgunmat á veitingastaðnum. Þar eru í boði alls kyns ferskir ávextir og ferskur papaya safi og gott hreinsandi jurtate. All bragðast betur og öðruvísi hér á Sri Lanka. Það minnir mig á engan hátt á þurrt, grænt te eða annað heilsuflipp sem ég þekki að heiman. Ég er sjúk í litlu, dökkbrúnu, “sykurmolana” sem fylgja alltaf jurtateinu. Þeir eru sætir og alveg hráir og ferskir. Namm.

Að lokum fæ ég soðnar kjúklingabaunir með ferskrifnum kókos. Ég neyðist til að hætta borða þegar ég er búin með helminginn - ég er fullkomlega södd. Ég hafði ímyndað mér að ég væri að fara í sveltikúr? Nei, þvert á móti.

Kl. 9.30 hringir dyrabjallan í litla húsinu mínu. Í þetta skipti er það lítill, eldri maður, Dr. Anand (herra síglaður) segir hann og brosir hringinn.

Það er kominn tími á viðtal dagsins. Púlsinn er 72, sem er fullkomið og blóðþrýstingurinn 90/50 - lágur eins og alltaf.

Dr. Arnand lítur á mig yfir gleraugun með spurningamerki í augunum. Hann skilur ekki í því hvernig ég gat lifað með öllum mínum kvillum án þess að aðhafast neitt í öll þessi ár. Hann les í tunguna á mér, horfir djúpt í augun á mér og skipuleggur meðferð dagsins.

Að lokinni þessari heimsókn mun ég fá þrjár meðferðir aftur!

Olíu, andlits- og höfuðnudd sem fylgt er eftir með heilnuddi og andlitsmeðferð til að hreinsa húðina á mér. Hana skortir útgeislun, vill Dr. Arnand meina. Hann vill einnig að ég byrji í algjörri úthreinsun sem hefst á því að hreinsa út ristilinn. Það er gert með alls kyns jurtum sem ég á að drekka oft á dag. Þær bragðast alls ekki illa. Hann heldur því einnig fram að nálastungur myndu gera mér gott. Ég hef ákveðið að fara að ráðum sérfræðinganna og gera það sem mér er sagt. Ég fer “all in”! Ég ætla að fá eins mikið fyrir peningana og hægt er fyrst ég er nú komin í þetta Power Retreat.

Það er “erfitt” að liggja í þrjá tíma á gróthörðum nuddbekk. Ég finn fyrir stífleikanum í líkamanum og um leið get ég fundið að þetta gerir mér gott. Heita olían er notaleg. Allar olíur eru sérvaldar eftir líkamsgerð minni og þeim kvillum sem ég glími við. Streita er mjög sýrumyndandi og á ég að losna við hana ásamt öðrum myndefnum með úthreinsuninni.

Tíminn flýgur. Þó svo að mér finnist að allt standi á einhvern hátt í stað. Klukkan verður fljótt 13 og hádegismatinn borða ég í herberginu mínu. Mér líður eins og drottningu. Í dag fær ég einhvers konar steinseljusalat með hráum lauk og litlum, skrýtnum ávöxtum sem líta út eins og ólívur. Aðalrétturinn er lítið eldaður, hvítur fiskur og brún hrísgrjón með gufusoðnu grænmeti. Eina grænmetið sem ég þekki er lítill tómatur sem er til skrauts. Allt bragðast dásamlega og aftur verð ég að leyfa nokkru því ég er einfaldlega södd.

Ég er ekki enn farin að átta mig á breytingunni. Ég er mjög óvön því að vera svona södd heima. Ég hlýt að finna svar við því á meðan ég er hér! Hver máltíð endar alltaf á smá blönduðum ávöxtum í eftirrétt.

Ég fór í langan göngutúr eftir ströndinni sem er 100 metrum frá hótelsvæðinu. Ströndin er auð og á engan hátt túristaleg. Ég hitti aðeins tvo ástfangin pör sem búa hér. Í dag blæs aðeins og öldurnar minna mig á Vesturhafið. Strætóstoppistöðin er einnig við ströndina. Það verður spennandi að sjá hvernig hér verður útlítandi eftir 20 ár? Verða kaffihús, næturklúbbar og neonljós með Starbucks og McDonald’s út um allt? Eða verður hægt að varðveita þetta einstaka umhverfi og það andrúmsloft sem einkennir staðinn? Akkúrat núna nýt ég þess að allt er ósnert.

Kl. 15.30 fékk ég klukkutímakennslu í Ayurveda frá Dr. Síglöðum. Það er ótrúlega spennandi og í rauninni ótrúlega rökrétt. Ayurveda er sanskrít og þýðir “vitneskja lífsins”. Það byggir á meira en 5000 ára gamalli þekkingu og hefð, sem hefur gengið í arf milli kynslóða. Eingöngu er notast við náttúrulyf.
 

Meðferðin er alltaf eftirfarandi:

 1. Úthreinsun
 2. Enduruppbygging
 3. Styrking.

 

Þú ert það sem þú borðar segir Dr. Arnand. Sem segir sig eiginlega stjálft og virkar algjörlega rökrétt á mig. Hverju býst ég við ef ég fylli mig af kjöti, hvítu brauði, sykri, tilbúnum bragðefnum og gerfiefnum daginn út og inn? Dýralæknar ganga alltaf úr skugga um að dýrum sé gefið rétt fóður og er það fyrsta atriði meðferðar ef um sjúkdóm er að ræða. Hvers vegna höfum við algjörlega gleymt þessum náttúrlega og skynsamlega þætti lífsins á Vesturlöndum? Það hræðir mann eiginlega dálítið, eins og Dr. Arnand segir: matur gerir þig veikan eða mat gerir þig heilbrigðan?

Fyrsta reglan sem ég á að fylgja í dag er:

ALDREI borða kjöt eða fisk með mjólkurvöru (mjólk eða súrmjólkurvörum)!
Dr. Arnand endurtekur ALDREI alvarlega. Hann gefur mér uppskrift sem ég á að taka með heim og nota - sérstaklega á veturna:
 

 • 2 hlutar kóríanderfræ
 • 1 hluti mulið engifer
 • 1 hluti kúmmín

 

Allt er malað í morteli þangað til það er orðið að grófu dufti. 2 tsk af duftinu er sett í sjóðandi vatn og soðið í fáeinar mínútur. Hellt í gegnum síu og drukkið með smávegis lífrænu hunangi. Þetta er töframeðal fyrir meltinguna.

Dr. Arnand útskýrir fyrir mér hve mikilvægt fyrir líkamann það er að fara í gegnum afeitrun minnst tvisvar á ári. Ayurvedísk læknisfræði notar jurtir til drykkjar, mataræði sem tekur mið af líkamsgerð og tvö mikilvæg meðferðarform:

Nasaskolun og ristilhreinsun. Hvorttveggja er gert með soðnum jurtum eða heitum olíum. Og það mun koma að því á næstu dögum, segir Dr. Arnand róandi. Hm… hugsa ég og er smá spennt yfir því hvernig þessi ferð muni þróast? Ég finn fyrir smá höfuðverk og veit að það er vegna þess að ég er byrjuð á úthreinsuninni nú þegar.

Ayurveda byggir á nokkrum grundvallaratriðum sem mælt er með að vefa inn í hversdaginn til þess að ná jafnvægi í líkamanum:

Nota tungusköfu til að hreinsa tunguna kvölds og morgna. Aldrei að drekka með máltíð, ekki fyrr en eftir mat. Og aldrei drekka ískalda drykki. Drekkið gjarnan volgt vatn.

Alltaf byrja daginn með glasi af soðnu vatni til að koma meltingunni í gang.

Þvoið iljarnar áður en farið er í háttinn.

Setjið nokkra dropa af olíu á hvirfilinn áður en farið er að sofa.

Lifið lífi þar sem heilbrigt jafnvægi ríkir milli virkni og hvíldar. Gjarnan með jóga og hugleiðslu.

Æskilegt er að hafa hægðir 2-3 sinnum á dag.

Ayurveda er mikil þekking. Menntun Ayurvedísks læknis tekur 5-7 ár í háskóla og er álitin ekki minna mikilvæg en vestræn læknisfræði.

Mig langar virkilega að læra miklu meira um þetta efni og hlakka til að gera nokkur grundvallaratriði hluta af mínu daglega lífi.

K. 17 er aftur kominn jógatími.

Ég finn fyrir því í kvöld að ég er rólegri, jákvæðari og afslappaðri en í gær. Ég hef bara staðið sjálfa mig að því einu sinni að hugsa um vinnuna á meðan ég lá í sólbaði í garðinum mínum með góða bók.

Kl. 18.30 er kominn kvöldmatartími. Smá grænt salat, bragðgóð súpa, smá brún hrísgrjón og soðið grænmeti og loks ávextir. Í dag eru engar sósur eins og í gær en Dr. Arnand sagði reyndar í kennslustundinni í dag: Í úthreinsun tekur kokkurinn í burtu eitthvað eitt af disknum á dag. Ég enda að sjálfsögðu á góða, heita teinu.

Það hljómar kannski ótrúlega fyrir þig, sem lest þetta, en tíminn flýgur hreinlega. Ég er algjörlega afslöppuð og hugsa í mesta lagi mínútu fram í tímann. Það kallast að vera í núinu? Ég les, skrifa smá, sef smá og nú er strax kominn háttatími. Ég elska að fara í háttinn kl. 22. Það er mitt eigið persónulega fegurðar- og heilsuráð sem ég hef orðið mjög háð undanfarin ár.
 

Svo góða nótt héðan og þúsund þakkir fyrir frábæran dag. Ég er strax farin að hlakka til morgundagsins.

 

Dagur 3

 

HREINSUNIN GENGUR VEL

Eftir morgunrútínuna með soðnu vatni og hunangi og Tíbetunum 5 er ég klár í nýjan dag fyrir líkama og sál. Hreinsunin er komin í gang líkt og ég get vitnað um með fjölmörgum klósettheimsóknum í nótt og í morgun. Ég finn ekki fyrir neinum óþægindum í maganum en það er meira í maganum en ég hafði reiknað með, sem þarf að komast út. Hm… sko, hvernig getur maður orðað þetta pent? Það er víst ekki hægt.

Morgunmaturinn kom virkilega á óvart í dag. Vinalegu þjónarnir höfðu útbúið hann eins og ég væri að fara í lautarferð. Á gólfinu var mjúk motta með blómum, reykelsum og litlum kertaljósum út um allt. Hér sat ég eins og í hásæti drottningar og naut dekursins undir bláum himni, fuglasöng og brosandi þjónum allt um kring. Ég fékk heila kókoshnetu með röri, ferska ávexti og brúnan grjónagraut og loks græn spríruð yam með chili og ferskrifinni kókoshnetu. Ég er ekkert smá södd.

Það er ótrúlegt hve bragðgóður og mettandi maturinn er hérna. Ég byrja smám saman að skilja muninn á góðum mat með miklu næringarinnihaldi og eintómu skyndifæði sem mettar ekki og er þess í stað fitandi og gerir okkur veik!

Hvað í veröldinni hefur fengið flest okkar til þess að fara svona langt í burtu frá því sem okkur er náttúrulegt.

Dr. Arnand kom í daglegu morguvitjun sína. Hann hefur mig grunaða um að vera með þvagsýru í líkamanum fyrst ég er með stífa og bólgna liði. Hann skrifar upp á lyfseðil fyrir mig og ég er spennt að sjá hvað hann kemur með?

Meðferð dagsins felur aftur í sér heilnudd, höfuðnudd og sérstaka olíu/hryggsúlumeðferð. Hvað er nú það? Jú, það er nokkurs konar deig sem rúllast upp í langa pylsu og myndar hring á bakinu á mér. Í hann er hellt sérstakri heitri olíu með jurtum í. Það á ég að liggja með í 40 mínútur. Ég finn hreinlega hvernig slaknar á svæðinu í kringum neðra bakið og mig dreymdi ótrúega drauma á meðan ég lá þarna í skugganum í mínu eigin prívat spai í mínu eigin húsi. Aumum liðunum hefur verið pakkað inn í einhvers konar jurtir sem ég á að vera með í nokkra klukkutíma, eða eins lengi og mig langar til.

Mig langar annars í bað því ég er smurð olíu frá toppi til táar - vona að hún virki sem góður hárkúr, öll þessi olía í hárið á hverjum degi?

Morgunverður í garðinum mínum í dag. Aftur grænt salat með dásamlegu pestói og gulri túrmerik-súpu, soðnu grænmeti og fisk í gulu karríi. Einn rauður og einn gulur banani í eftirrétt. Á Sri Lanka er 18 mismunandi tegundir af banönum! Hugsið ykkur - ég sem hélt að banani væri banani?

Ég get ekki einu sinni borðað helminginn, sem kemur mér aftur á óvart. Mér finnst nú þegar að ég geti fundið að ég hafi lést smá? Ég á eftir að vera svo heilsuhraust og flott - enn heilsuhraustari og flottari.

Kl. 16 kom læknirinn minn aftur - í þetta skipti átti ég að fara í nálastungumeðferð. Ég er ekki sérstaklega spennt fyrir nálum en verð að viðurkenna að hann gerði þetta án þess að ég tæki einu sinni eftir því. Það var aðeins ein nál við annan ökklann sem ég fann aðeins fyrir. Ég átti að liggja með nálarnar í mér í 35 mínútur.

Það er einfaldlega þvílíkur lúxus að allt og allir komi í húsið mitt - ég þarf bara að einbeita mér að því að slaka á, njóta og lækna líkamann.

Enn frábærara er að allar meðferðirnar fara fram utandyra í þessu dásamlega hitastigi í kringum 28 gráður. Létt gola, þytur í laufi og fuglasöngur er það eina sem ég heyri í bakgrunninum.

Síðar er jógatími með gúrúinum mínum. Mér finnst strax að ég sjái mun á liðleika og úthaldi. Jóga er á engan hátt einhver sýning eða keppni. Jóga er ævilangt ferli þar sem  mkilvægt er að vera akkúrat á á því stigi sem ég er núna. Enginn samanburður eða pressa. Bara njóta hverrar einustu pósu.

Gúrúinn minn leiðir mig í gegnum hina daglegu hugleiðslu og ég slaka fullkomlega á andlega. Það er sjaldgæf tilfinning, að sleppa öllum áhyggjum og stressi, vangaveltum og neikvæðum hugsunum. Bara að vera í andlegum frímínútum og finna fullkomið frelsi og hamingju. Það hjálpar mér reyndar að öðlast betri skilning á því að í ferðinni hef ég einmitt verið að lesa bókina: „Hin vakandi vera“ eftir Barbera Berger, sem er andlegur leiðbeinandi. Ég mæli með því að taka nokkrar góðar bækur með í ferðina. Hér eru reyndar líka margar spennandi bækur til útláns.

Hér á staðnum gildir mottóið: „Engir tveir dagar mega vera eins“. Eftir því er svo sannarlega farið í kvöld. Kvöldmaturinn er borinn fram á pallinum í garðinum við húsið mitt. Þegar þjóninn bankaði til að segja „gjörðu svo vel“ opnaði ég dyrnar út í garð sem fylltur hafði verið með fallegum ljósum, kyndlum, blómum um allt og svo sat lítill maður í myrkrinu og spilaði fallega tónlist á mandólín.

Hvílíkt hvað þetta kom á óvart. Ég er innilega þakklát fyrir allt það góða fólk sem leggur sig svona fram og leyfir mér að upplifa svona margt. Hjartansþakkir!

Maturinn er enn og aftur dásamlegur. Það hljómar kannski merkilega en það kemur mér virkilega á óvart hve vel grænmetisfæði getur bragðast. Hér á ég sitthvað ólært og ég hlakka til matreiðslunámskeiðsins á föstudaginn. Það minnir mig á að litlu brúnu „sykurmolarnir“ sem ég skrifaði um fyrr eru alls ekki sykur! Þeir eru hreint hunang! Og ég hef lært að hunang er ein heilbrigðasta fæðutegundin fyrir líkama minn. Ég er búin að biðja um að fá að kaupa 8 pakka til að taka með mér heim.

Ég drekk jurtateið í rúminu með góða bók. Þetta er búinn að vera langur og spennandi dagur og líkaminn er virkilega í fullri vinnu. Ég þrái langan nætursvefn.

 

Dagur 4

 

TVEIR DAGAR ERU Í ALVÖRU ALDREI EINS

Dyrabjallan hringir og klukkan er 6.30. Mér er fært hunangsvatnið og ég þarf að fara á fætur. Ég hef sofið eins og engill en er enn stíf í líkamanum þegar ég er að komast í gang á morgnana. Ekki að það sé neitt nýtt fyrir mig en hér er litið á það sem ójafnvægi í líkamanum sem taka skuli alvarlega og leiðrétta.

Klukkan er orðin 7.30 og við ætlum í jóga. Nú verum við farin að gera morgunjóga. Það er einfaldlega gott-vont. Ég anda ótt og títt og styn ennþá og get ekki verið í sömu stellingunni lengur en mest eina mínútu án þess að það verði of erfitt. Við erum enn á byrjendastigi í jógaprógramminu og gúrúinn minn hefur góða tilfinningu fyrir því hvar við öll erum stödd í ferlinu. Hann pressar okkur aldrei til þess að gera meira en það sem er gott fyrir okkur.

Hann segir okkur að hann sofi alltaf á gólfinu með mjög þunnu undirlagi. Dýnur eru ömurlegar, segir hann, og gerir fólk stíft í líkamanum. Kannski er þetta einhver boðskapur fyrir mig?

Ég er alltaf mjög stíf í líkamanum þegar ég vakna á morgnana. Ætti ég ef til vill að segja bless við heittelskaða rúmið mitt og sofa bara á þunnu undirlagi? Það hljómar ef til vill sársaukafullt en ég hef lofað sjálfri mér að prófa það, þannig að í nótt ætla ég að sofa á gólfinu. Ég skrifa meira um þá upplifun á morgun.

Jóga er stórfengleg leið til að byrja daginn. Mig langar mest af öllu að taka jógagúrúinn minn með mér heim í ferðatöskunni. Til að byrja með hef ég tekið mynd af honum sem ég ætla að hengja upp heima. Hún ætti að minna mig á að halda áfram þessari góðu rútínu.

Morgunmaturinn er borinn fram í sólinni með litlum, fallegum hrísgrjónapönnukökum sem eru steiktar við borðið. Dásamlegur, ferskur melónusafi, ferskir ávextir og mismunandi tegundir af karrígrænmeti. Ég verð bara að endurtaka mig: Þetta er einfaldlega svo frábært.

Dagurinn flýgur af stað. Heimsókn frá lækninum eins og alltaf, þriggja tíma meðferð, hálftíma hvíld og svo í bað og hádegismat. Þetta var nánast allur dagurinn. Ég er farin að verða áhyggjufull yfir því að geta ekki sólað mig aðeins meira. Ég vil auðvitað gjarnan koma heim 10 árum yngri, en líka gjarnan með smá lit í kinnum. 

Í dag kl. 16 á ég að vera mætt á rannsóknarstofu í Negombo, þar sem rannsaka á þvagið í mér. Dr. Arnand telur að ég geti verið með þvagsýrueitrun og vill að gerð verði nokkur próf á spítalanum. Rannsóknarstofan er á spítala sem er í nokkurra mínútna fjarlægð. Hún er ótrúlega hrein og fín en dálítið gamaldags. Allt starfsfólk er ótrúlega vinalegt, brosmilt og áhugasamt. Ég fæ lítið sýnaglas sem ég á að pissa í og eftir 30 mínútur fæ ég svar. Það er ENGIN þvagsýra eða annað í þvaginu og ég á að vera fullkomlega heilbrigð og hraust. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ég sé einfaldlega haldin of mikilli streitu og hafi stundað allt of litla hreyfingu og teygjur. Enn eitt merki um hversu gott jóga er fyrir mig.

Ég var keyrð í TukTuk á spítalann. Meðan ég beið eftir niðurstöðunum keyrði bílstjórinn mig í matvörubúðina á staðnum. Ég keypti helling af kryddi úr nágrenninu, brúnar rísnúðlur og kasjúhnetur. Ég fór út með risastóran innkaupapoka og hafði keypt fyrir um það bil 120 danskar krónur. Svo ekki sé minnst á kostnaðinn við rannsóknina: 6 danskar krónur – já þú lest rétt, 6 danskar krónur! Það er ekki einu sinni hægt að kaupa einn poka af nammihlaupi fyrir það heima.

Þegar við komum til baka gerði ég mína daglegu 5 Tíbeta. Mér finnst ég sterk sem naut eftir alla þessa hreyfingu!

Engir tveir dagar eru eins. Þegar ég kom til baka í húsið mitt beið mín freyðibað í útibaðkarinu mínu og um allt voru blóm og sprittkerti. Mér finnst ég virkilega dekruð og heppin. Hugsið ykkur, allt þetta fólk sem skipuleggur þetta fyrir mig. Hver einasti dagur er óvænt uppákoma.

K. 18.30 er tími fyrir tónlistarmeðferð. Dr. L.P. Sisira kemur til mín með sítar (sem líkist gítar). Dr. Sisira er með eigin stofnun þar sem hann veitir meðferð við þunglyndi, kvíða, streitu og ýmsu öðru. Hann vinnur með sjúkrastofnunum, yfirvöldum og í fangelsiskerfinu þar sem verið er að innleiða tónlistarmeðferð hans. Hann stillir upp í húsinu mínu og útskýrir hvers vegna tónlistarmeðferð er svona mikilvæg fyrir andlega heilsu og hvernig það hefur verið sannreynt með vísindalegum rannsóknum að tónlistarmeðferð hefur heilmikil áhrif á heilsu. Jafnvel er hægt að hafa áhrif á heilaþroska lítilla fóstra í móðurkviði.

Dr. Sisira leikur bæði fyrir einn og einn í einu sem og stærri hópa. Allt eftir óskum. Ég fæ einkatíma og nýt hugleiðslutónlistarinnar með augun lokuð. Dr. Sisira býður einnig upp á samtalsmeðferð ef ég finn þörf á því. Hann er mjög tilfinninganæmur og ég sit og dáist að ró hans og þeirri miklu útgeislun sem hann hefur. Hann lærði í Indlandi í 12 ár til að geta töfrað fram nákvæmlega þessa læknandi tóna á gítarinn. Aftur finnst mér ég vera heppin. Að hugsa sér að ég skuli fá að njóta alls þessa.

Í dag langar mig að borða kvöldmatinn á veitingastaðnum. Það er í fyrsta sinn síðan ég kom. Það hefur svo margt gerst í dag og ég borða þennan dásamlega mat og fer aftur í herbergið mitt með bolla að heitu jurtate í höndunum. Mig langar að vera ein og njóta hins innra friðar og fullnægju sem ég hef komist í tengsl við í gegnum tónlistarmeðferðina.

 

Dagur 5

 

JURTABAÐ OG BÆJARFERÐ

Klukkan er aftur orðin 6.30 og dyrabjallan hringir og mér er færður bolli með heitu vatni og hunangi. Það er engin vigt á staðnum – sem er eiginlega gott fyrir mig – því annars myndi ég vigta mig daglega og öll athygli mín beindist að henni en ekki slökuninni. En ég er samt spennt að vita hvort ég hafi lést? Ég máta mjög þröngar hvítar gallabuxur sem ég tók með mér og vona að ég geti fundið mun. Ég finn smá mun! Jibbí.

Jóga kl. 7. Það er erfitt og gott. Það er ótrúlegt hvernig líkaminn bregst við. Fyrstu dagana gat ég hreinlega ekki kropið og setið á ökklunum en í dag geti ég það í meira en mínútu. Það er geggjað fyrir mig! Ég hef aldrei getað gert það áður.

Eftir jóga og hugleiðslu fáum við okkur smá snarl með gúrúnum okkar. Við tölum um að hamingjuna sé að finna í hjörtum okkar og hvergi annars staðar. Það er líka mín sannfæring. En samt stundum svo erfitt að finna hana. Gúrúinn segir okkur frá því hversu mikil áhrif hugleiðsla getur haft, bæði fyrir mann sjálfan og líka fyrir umhverfið. Hugleiðsla getur átt þátt í því að skapa frið á jörðu.

Ég finn að þetta er eitthvað sem ég gæti vel notað restina af deginum í að velta vöngum yfir.

Aftur er dásamlegur morgunmatur í bakandi sólinni.

Ein ábending áður en þú ferð sjálf/ur af stað: Taktu með víð og þunn föt. Maður svitnar meira segja í smá sumarkjól kl. 8 að morgni.

Dr. Arnand kemur í sína daglegu vitjun. Ég held áfram með hreinsandi jurtalyfin sem eiga að virka jákvætt á öll einkenni mín. Í dag eru hinar þrjár daglegu meðferðir, olíunudd á höfðinu í klukkustund, andlitsmeðferð með alls kyns möskum og nuddi og líkamsburstun og maski gerður úr jurtum, leir, hunangi og grænum laufum.

Fyrst var ég smurð frá toppi til táar og síðan ligg ég með baksturinn í 20 mínútur og læt jurtirnar virka. Þvínæst kemur meðferðaraðilinn og skrúbbar hann inn í húðina og loks er komið að dásamlegu, volgu jurtabaði. Stórt og flott trébaðkar er fyllt með heitu vatni og jurtum og allt um kring er aftur skreytt með fallegum blómum, kertaljósum og reykelsi. Allt er gert af kærleik og orku. Ég er komin með silkimjúka barnahúð. Allt þetta er gert úr náttúrulegum afurðum! Ekki nein fín, frönsk merki eða neitt. Nei, þetta er allt „back to basic“. Sáraeinfalt og ótrúlega áhrifaríkt.

Nú er ég að venjast þessu öllu. Allar þrjár máltíðirnar á hverjum einasta degi eru þriggja rétta. Alltaf einhvers konar salat, síðan er bragðgóð og krydduð grænmetissúpa og oftast hrísgrjónaréttur með grænmeti. Alltaf ferskir ávextir í eftirrétt. Mmmm…

Eftir hádegishvíldina langar mig að skrebba í bæjarferð inn í miðborg Negombo. Ég tek TukTuk frá hótelinu. Það tekur um 8 mínútur. Það iðar allt af fólki, hundum, hænum og öðru spennandi. Skellinöðrur, mótorhjól og TukTuk fylla mest af götumyndinni. Mig langar að láta sauma á mig nokkra létta sumarkjóla. Bílstjórinn sýnir mér skemmtilegan, lítinn stað sem ég hefði aldrei sjálf fundið. Fullt af fólki situr og saumar í bakherberginu. Ég finn efni og prútta smá verðið smá niður. Við sammælumst um 110 danskar krónur fyrir sumarkjól. Ég sæki hann eftir nokkra daga – þá mun ég komast að því hvort hann stenst væntingar mínar?

Annars verð ég að segja að það er ekkert í þessari ferð sem hefur valdið mér vonbrigðum. Fólkið, þjónustan, maturinn, meðferðirnar, jógað – allt hefur uppfyllt mínar væntingar. Ég finn fyrir djúpri ró og innri kyrrð sem ég hef ekki fundið fyrir lengi. Ég er hljóð og hef þörf á að vera í einrúmi og bara sökkva mér í hugsanir mínar. Það er eins og sál mín sé í ró. Ég er afslappaðri en ég get lengi munað. Og þrátt fyrir þetta sagði jógagúrúinn við mig í morgun að ég væri stressuð. Hann togaði fast í hárið á höfðinu á mér og sagði að ennið á mér og þriðja augað gætu ekki slakað á í hugleiðslunni. Hvað er það í lífinu sem stressar þig svona mikið, spurði hann umhyggjusamlega? Hvílík spurning að fá klukkan 7 að morgni.

Ég þarf víst að breyta nokkrum venjum þegar ég kem heim. En það er einmitt þess vegna sem ég gaf mér þá gjöf að fara í þessa ferð. Ég vil fá eitthvað meira og betra út úr lífinu en að sætta mig við þá lífstílssjúkdóma sem við þurfum smám saman öll að glíma við ef við hugsum ekki um líkama okkar og sál af umhyggju og kærleika. Það er ekki bara það að verða gömul. Ég vil vera frísk, hress, glöð og gömul.

 

Dagur 6

 

RISTILSKOLUN OG GÓÐAR MEÐFERÐIR

Ég er nú þegar orðin mjög háð bæði soðnu vatni með hunangi, morgunjóga og hugleiðslu. Það er einfaldlega stórkostlegt að byrja daginn á þann hátt. Ég tek eftir því að vöxturinn á mér hefur breyst og er viss um að ég hafi grennst. Það er merkilegt að þegar ég er heima borða ég næstum helmingi minna en það sem ég fæ hérna úti. Munurinn er örugglega sá að hér fæ ég það rétta fyrir mína líkamsgerð og nægilega mikið til að halda góðri brennslu allan daginn. Heima er ég mjög gjörn á að borða of lítinn morgunmat og hádegismat og gúffa svo í mig á kvöldin. Ayurveda mælir með því að borða stóra máltíð á morgnana – helst fyrir klukkan 8.30 á morgnana. Hádegismat fyrir kl. 13 og kvöldmat að minnsta kosti tveimur klukktímum áður en farið er í háttinn.

Það er allavega ótrúlegt hvað 5 dagar geta gert. Mér hefur aldrei, og ég undirstrika ALRDREI liðið betur í liðunum. Þeir eru ekki lengur aumir og ég þoli meira að segja að láta nudda þá. Húðin á mér er falleg og mjúk eins og á ungbarni, ég er róleg og afslöppuð og finn innra jafnvægi. Ég verð ekki pirruð og óþolinmóð. Höfuðverkurinn er horfinn og mér finnst ég yfir höfuð heilbrigðari á sál og líkama. Ég er enn dálítið stirð í liðum og vöðvum en mun betri en þegar ég kom fyrir nokkrum dögum.

Svo að ég get nú þegar dregið þá ályktun að allt er á leið í rétta átt.

Djúpt í hjarta mínu óska ég þess virkilega að allir myndu gefa sjálfum sér þá gjöf að fara á stað sem þennan. Það opnar virkilega augu manns fyrir öllum þeim fjölmörgu möguleikum sem við höfum á að hugsa um líkama okkar og heilsu. Ég finn fyrir miklu frelsi. Frelsi til að velja það sem er gott fyrir mig! Þannig að ég þakka enn og aftur fyrir að hafa endað hérna og að hafa lært helling af nýjungum sem munu gagnast mér í fjölmörg ár.

Læknirinn kom í morgunvitjun og ég held áfram með jurtalyfin mín og úthreinsun. Púlsinn er 72 og blóðþrýstingur 90/60 eins og venjulega. Dr. Armand segir að ég líti út fyrir að vera glaðari í dag? Það er ég líka.

Í dag mælir hann með líkamsnuddi með olíu, andlitsmeðferð og 20 mínútum í gufukassa. Það er rjúkandi heitur trékassi þar sem einungis höfuðið á mér stendur út úr. Gufu með hreinsandi jurtum er dælt inn í kassann. Ég ætla ekki að segja þér hvað þetta er heitt. Úff, hvað ég svitna. Ég reyndi að hugleiða, bæla hugsununum frá og hugsa um allt annað en gufuna, en ég réð varla við að loka augunum. Þetta voru langar 20 mínútur og heitar. Þegar ég kom út úr kassanum svimaði mig og varð að drekka vel af vatni áður en ég gat lagst í rúmið til að slaka á. Gufan virkar mjög hreinsandi og grennandi þannig að ég fer örugglega aftur af stað á morgun!

Það er virkilega heitt í dag og nær eini staðurinn sem hægt er að vera er í sundlauginni. Ég hef reynt að liggja smá í sólbaði en það verður fljótt of heitt. Ég nýt notalegs, volgs sundlaugarvatnsins og nýt þess að gera ekki neitt þennan eftirmiðdag.

Kl. 15.30 fer allt að gerast! Nú er komið að ristilhreinsuninni. Ég er svolítið spennt að vita hvernig hún er. Ég hef oft farið í ristilhreinsun heima en aldrei prófað þessa aðferð. Læknarnir koma til mín í húsið mitt og biðja mig að leggjast á bekkinn. Ég á að liggja á vinstri hlið og slaka vel á. Ég er í kjól svo ég neyðist ekki til að vera á „Evuklæðunum“. Læknirinn sýnir mér sótthreinsað einnota gúmmírör sem á að fara upp í bakhlutann á mér. Hann gerir það mjög varlega svo ég finn ekki fyrir óþægindum né verkjum. Ég finn varla fyrir neinu og þetta tekur enga stund. Hann sprautar 50 ml af volgri olíu með fjöldanum öllum af jurtum upp í afturendann á mér. Ég á að liggja flöt á bekknum í 10 mínútur og því næst fara í rúmið og hvíla mig í klukkustund áður en ég fer á klósettið. Þessi meðferðartegund er kölluð „vasti“ og er ein af grundvallarmeðferðum í Ayurvedísku fræðunum.

Ég lofaði víst að ég myndi skrifa hvernig það væri að sofa á gólfinu. Ég verð víst að valda þér vonbrigðum því að ég valdi rúmið og moskítónetið þegar allt kom til alls. Það er ekki vegna þess að allt sé morandi í moskítóflugum, heldur veldur hræðsla mín við kóngulær því, að mér fannst öruggara að vera undir neti þegar ég svæfi. Ég verð þó að viðurkenna að það eru fleiri kóngulær í mínu eigin húsi í Danmörku en ég hef séð hér. Þau dýr sem ég sé mest af eru litlir, gráir íkornar sem dansa milli trjánna og horfa á mig forvitnisaugum þegar ég borða. Þeir eru svo sætir.

Kl. 17 eru Tíbetarnir 5. Ég finn hvernig það verður auðveldara og auðveldara fyrir mig að gera æfingarnar og liðleiki minn eykst hratt.

Kl. 18.30 er matreiðslunámskeið. Við lærum að gera kókosmjólk, baka lítil, holl brauð og að gera góðan karrý/linsubaunarétt. Allur matur er grænmtismatur og eftir Ayurvedískum uppskriftum. Ég myndi gjarnan vilja hafa lært ennþá meira en ég veit að Martin er að gera tilbúið fyrir næsta hóp og hefur lofað að setja uppskriftirnar á vefsíðuna svo þær geti gagnast öllum.

 

Dagur 7

 

MJÓLK OG HUNANG

Þessu er alveg að ljúka í þetta skiptið. En pottþétt ekki að eilífu. Ég er þegar byrjuð að plana í huganum hvenær ég geti komið aftur fljótlega.

Þetta er síðasti dagurinn með jógagúrúnum okkar. Hans kem ég til með að sakna. Hann er mjög hvetjandi og gefandi manneskja og mér finnst ég hafi lært mikið af honum. Ég veit að Martin vinnur að því að fá hann heim til Danmerkur í febrúar og ég vona að það takist. Ég mun verða fyrst til að skrá mig í alla jógatímana.

Eftir morgunmatinn er síðasta læknisvitjunin. Það á að taka stöðuna. Það eina sem eftir er af einkennunum er smá vöðvaspenna. Það er eins og líkaminn á mér sé of óttasleginn til að koma út í frelsið sem fylgdi því að lifa án vöðvaspennu? Svo að niðurstaða mín er sú að vandamálið er miklu meira milli eyrnanna á mér en í líkamanum sjálfum.

Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að læknirinn vill pakka mér inn í heita mjólk með hunangi og brúnum hrísgrjónum og setja mig í heitt jurtabað. Því næst er „sirodharda“ sem er heit olía í þriðja augað sem drýpur hægt úr messingskál sem hangir fyrir ofan höfuðið á mér. Meðferðinni lýkur loks með höfuð- og andlitsnuddi. Þetta virkar nánast eins og hugleiðsla fyrir mig og ég svíf á milli svefns og vöku. Þetta er himneskt!

Af því að þetta er síðasti dagurinn og lokin á hreinsuninni á ég að fá aðra tegund af ristilhreinsun í hádeginu sem samanstendur af heitu vatni með sesamolíu og helling af jurtum sem soðnar hafa verið alla nóttina. Læknirinn sýnir mér blönduna stoltur. Hann segir að þessi blanda lækni yfir 1000 sjúkdóma og ég get séð á honum að hann veit hvað hann er að tala um.

Í dag á ég að fá 600 ml af vökva í hinn endann, ekki þann sem ég innbyrði vökva venjulega í gegnum. Enn smá spennt en það er alls ekki vont og mér sýnist á starfsfólkinu að því finnist þetta eðlilegasta meðferð sem til er. Og án þess að fara í allt í smáatriðum þá get ég sagt þér að það var stór „bónus“ í næstu klósettferð. Það var mjög góð tilfinning.

Ég á einnig að fara í nasaskolun í dag. Það er í raun sú meðferð sem ég kvíði mest fyrir. Ég er dálítið viðkvæm í nefinu. Ég á að liggja á bakinu á bekk og læknirinn treður bómull í aðra nösina og lætur nokkra dropa af heitri olíu leka í hina nösina. Og svo öfugt.

Ég á að draga djúpt andann nokkrum sinnum í gegnum nösina og bíða eftir að slím og annað komi niður í munninn svo ég geti spýtt því út. Það er mjög ógeðslegt. Þetta er ekki nokkuð sem mig langar til að gera en ég skil vel af hverju þetta er gott fyrir mig eftir að læknirinn hefur útskýrt það fyrir mér. Nasaskolun er sérstaklega góð fyrir fólk sem hefur haft ennis- og kinnholusýkingu, er með skerta heyrn og lélega sjón.

Ég hef aldrei verið með mikla appelsínuhúð, en sú litla sem ég var með, er farin! Einfaldlega horfin!! Jibbí. Ég skil næstum ekki? En það er hreina satt. Ég lét taka mynd svo ég geti geymt þetta stóra augnablik.

Í lok eftirmiðdagsins geri ég Tíbetana 5 í síðasta skipti. Nú finnst mér ég vera fullkomlega tilbúin og klár í að fara heim og halda áfram þessari góðu, daglegu rútínu. Þetta eru æfingar sem ég get gert hvern einasta dag heima og munu tryggja gott orkuflæði í líkamanum og halda mér í súperformi.

Þannig að, fyrir utan það að ferðin hafi verið stórkostleg, ég hafi verið dekruð með alls kyns meðferðum, hollum mat og sólkskini, þá hef ég einnig fulla ferðatösku af verkfærum sem ég get notað undir eins þegar ég kem heim. Ég get gert Tíbetana 5, ég hef fengið kennslu í hugleiðslu og góðar jógaæfingar ásamt heilmikilli innsýn inn í hvernig ég geti ræktað sjálfa mig og verði eins heilbrigð og hægt er.

Ég er alls ekki tilbúin til að fara heim. Þetta hefur verið ógleymanlegur tími og hefur algjörlega opnað augu mín. Ég hef fengið lífslöngun sem gjöf til að taka með mér heim og ég mun nýta mér það sem eftir ef ævi minnar og deila með öllum þeim sem ég elska og öllum sem vilja þiggja. Vona að þú sjálf/ur komir þér fljótt í gang. Mundu að lifa heilbrigðu og skemmtilegu lífi.

 

Kærar kveðjur frá mjög glaðri og ánægðri

Zennie